Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.

Þskj. 618  —  366. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 45/1987,
um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 7. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Allir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum, sbr. 3. tölul. C-liðar 1. mgr. 7. gr., skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Ákvæði þetta gildir þó hvorki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands né þá vexti sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í heimilisfestarríki sínu.
     b.      Í stað orðanna „4.–7. tölul.“ í 8. tölul. kemur: 4.–8. tölul.

2. gr.

    Við 3. tölul. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um eftirgefnar skuldir sem mælt er fyrir um í nauðasamningi um greiðsluaðlögun skv. X. kafla a í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með áorðnum breytingum.

3. gr.

    Á eftir 57. gr. laganna kemur ný grein, 57. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skattlagning vegna erlends eignarhalds á lágskattasvæðum.


    Skattaðili sem á beint eða óbeint hlut í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki skal greiða tekjuskatt af hagnaði slíkra aðila í hlutfalli við eignarhluta sinn án tillits til úthlutunar. Hið sama á við um skattaðila sem stjórnar félagi, sjóði, stofnun eða eignasafni í lágskattaríki sem skattaðili hefur beinan eða óbeinan ávinning af. Tekjur þessar eru skattskyldar með sambærilegum hætti og um væri að ræða starfsemi hér á landi.
    Ríki eða lögsagnarumdæmi telst lágskattaríki þegar tekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar, sem um ræðir, er lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á félagið, sjóðinn eða stofnunina hefði hún verið heimilisföst á Íslandi.
    Ákvæði 1. mgr. á við þegar minnst helmingur eignarhalds í aðilum, sbr. 1. mgr., er beint eða óbeint í eigu íslenskra skattaðila eða stjórnunarleg yfirráð hafa verið til staðar innan tekjuárs.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef:
     1.      félag, sjóður eða stofnun fellur undir samning milli Íslands og lágskattaríkis til að koma í veg fyrir tvísköttun enda sé unnt á grundvelli samningsins að fá allar nauðsynlegar upplýsingar og tekjur félags, sjóðs eða stofnunar eru ekki að meginstofni til eignatekjur; eða
     2.      félag, sjóður eða stofnun er stofnsett og skráð í öðru EES-ríki og hefur þar með höndum raunverulega atvinnustarfsemi, og að íslensk skattyfirvöld geti á grundvelli tvísköttunarsamnings eða annars alþjóðasamnings krafist allra nauðsynlegra upplýsinga, sbr. 1. tölul. Þar sem ekki er fyrir hendi samningur, sbr. 1. málsl., hvílir upplýsingaskyldan á skattaðilanum.
    Tekjur skattaðila með beina eignaraðild miðast við samsvarandi hlutdeild í hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar eins og hagnaður yrði ákveðinn hér á landi ef aðilinn væri íslenskur skattaðili. Sé um óbeina eignaraðild að ræða skal miða við sameiginlegt eignarhald á þeirri starfsemi sem skattlagningin tekur til. Tap er því aðeins frádráttarbært skv. 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. að skattaðili geti, að ósk skattyfirvalda, lagt fram fullnægjandi gögn er liggja að baki útreikningi á tapi.
    Hafi félag, stofnun eða sjóður úthlutað hagnaði til skattaðila, sem skattlagður hefur verið skv. 1. mgr., skal úthlutunin ekki talin til skattskyldra tekna hjá honum nema hún sé hærri en þær tekjur sem skattlagðar eru skv. 5. mgr.
    Fjármálaráðuneytið getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „8. tölul.“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. tölul. kemur: 9. tölul.
     b.      Á eftir orðunum „skv. 3. gr. af“ í 4. tölul. kemur: vöxtum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „umboðsviðskipti“ í 2. mgr. kemur: milligöngu.
     b.      Á eftir orðinu „hlutabréf“ í 2. mgr. kemur: skuldabréf og aðra fjármálagerninga.
     c.      3. mgr. orðast svo:
             Bankar, sparisjóðir, önnur fjármálafyrirtæki og aðrir þeir aðilar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, sem taka við fjármunum til ávöxtunar, skulu ótilkvaddir veita skattyfirvöldum ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður upplýsingar um greidda eða greiðslukræfa vexti á árinu skv. 8. gr. laga þessara og afdregna staðgreiðslu og innstæður á bankareikningum og hvers konar verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Sama gildir um hvers konar útlán til viðskiptamanna og vaxtagreiðslur af þeim.
     d.      Á eftir orðinu „stofnfjárvexti“ í 6. mgr. kemur: skuldabréf og aðra fjármálagerninga sem og vexti af þeim.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 94. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Eigi aðili beint eða óbeint minnst helming eignarhalds eða er með stjórnunarleg yfirráð í dótturfélagi eða útibúi í öðrum ríkjum er honum jafnframt skylt að veita upplýsingar um viðskipti dótturfélags eða útibús við aðila skattskylda skv. I. kafla og félög, sjóði og stofnanir í lágskattaríkjum sem 1. mgr. 57. gr. a laganna tekur til.
     b.      Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Fjármálafyrirtæki, endurskoðendur, lögmenn og aðrir aðilar skulu halda sérstaka skrá yfir þá viðskiptavini sína sem þau veita skattaráðgjöf eða aðra þjónustu, sem snertir umráð eða beina eða óbeina eignaraðild viðskiptavinanna að rekstri félaga, sjóða eða stofnana sem skráð eru erlendis eða eignir þar. Er þeim skylt að láta skattyfirvöldum í té umrædda skrá er þau beiðast þess.
             Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæðum þessarar greinar.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 164/2008, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, þá kemur ákvæði 1. gr. laganna til framkvæmdar við álagningu tekjuskatts á árinu 2010.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

8. gr.

    Í stað orðanna „2., 3., 6. og 7. tölul. 3. gr.“ í 2. málsl. A-liðar 2. gr. laganna kemur: 2., 3., 6., 7. og 8. tölul. 3. gr.

9. gr.

    Í stað orðanna „2., 3., 6. og 7. tölul. 3. gr.“ í 6. tölul. 5. gr. laganna kemur: 2., 3., 6., 7. og 8. tölul. 3. gr.

10. gr.

    Í stað orðanna „2., 3. og 7. tölul. 3. gr.“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: 2., 3., 7. og 8. tölul. 3. gr.

III. KAFLI
Gildistaka.
11. gr.

    Ákvæði 1. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda vegna vaxta sem gjaldfalla og verða greiðslukræfir á árinu 2010 eða síðar. Hafi hluti vaxta áunnist fyrir gildistöku laganna eru þeir hvorki skattskyldir né staðgreiðsluskyldir.
    Ákvæði 2. gr. og 5.–7. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 3. og 4. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011 vegna tekna ársins 2010 og eigna í lok þess árs.
    Ákvæði 8., 9. og 10. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 2010.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um tekjuskatt og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda með það að markmiði að styrkja skattframkvæmd og vinna gegn skattundanskoti. Helstu efnisatriði frumvarpsins í þeirri röð sem þau koma fyrir eru þessi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að aðilar sem ekki hafa heimilisfesti hér á landi og bera því takmarkaða skattskyldu, sæti hér skattlagningu vegna vaxta sem þeir fá greidda hér á landi. Að baki tillögunni eru margvísleg rök. Vaxtatekjur íslenskra skattaðila, einstaklinga sem fyrirtækja, eru skattskyldar og ójafnræði felst í því að undanskilja vaxtatekjur erlendra aðila skattlagningu. Vaxtatekjur eru hluti af þeim tekjum sem erlendir skattaðilar geta fengið frá landinu. Aðrar tegundir tekna erlendra aðila, sem aflað er hér á landi, svo sem laun, þóknanir, rekstrarhagnaður, arður, leigutekjur og söluhagnaður eru skattskyldar hér og með skattlagningu vaxta er verið að skapa samræmi í þessum efnum. Vextir ásamt framangreindum tekjum er farvegur út úr landinu fyrir hluta af þeim virðisauka sem verður til við starfsemi í landinu og eðlilegt er að tryggja einhverja hlutdeild ríkissjóðs í þeim tekjum eins og öllum öðrum tekjum sem verða til í landinu. Ein meginástæða þess að tillöguna er að finna í þessu frumvarpi er að skattleysi vaxta úr landi opnar leiðir til að skjóta tekjum undan skatti hér á landi. Ein leið er sú að öðrum tekjum svo sem arði, leigutekjum o.s.frv. er umbreytt í vexti, t.d. með eignarhaldsfélag að millilið. Önnur er að íslenskur aðili færir fé til útlanda og lánar það eigin starfsemi hér á landi. Eins er alþekkt sú aðferð alþjóðlegra stórfyrirtækja að flytja hagnað á milli fyrirtækja og landa m.a. með lánveitingum milli eigin fyrirtækja. Fyrirbæri af þessum toga hafa komið upp í skattframkvæmd og er einkum hætta á þeim í löndum eins og Íslandi sem ekki hafa reglur um lágmarkseiginfjármögnun fyrirtækja. Þá er þess að geta að skattlagning vaxta, eins og annarra tekjustrauma úr landi, er nær almenn regla í skattalöggjöf í okkar heimshluta. Við upptöku fjármagnstekjuskatts voru vaxtatekjur gerðar skattskyldar að undanskildum vaxtatekjum erlendra aðila. Benda má á að íslenskt atvinnulíf er nú mjög skuldsett og því ljóst að á næstu árum mun umtalsverður hluti landsframleiðslunnar renna úr landi í formi vaxta til erlendra aðila. Skattlagning vaxta mun tryggja það að nokkur hluti þeirra mun renna í sameiginlegan sjóð landsmanna.
    Áhrif af skattlagningu vaxta til erlendra aðila eru fyrst og fremst þau að hluti af skatti á þessar tekjur rennur í ríkissjóð Íslands í stað þess að renna í ríkissjóð annarra landa. Vaxtatekjur eru nánast undantekningarlaust skattskyldar tekjur í öllum löndum. Vegna tvísköttunarsamninga eða fyrir tilverknað innlendrar skattalöggjafar veldur skattur á vexti í upprunalandi þeirra því ekki að skattbyrðin á þessar tekjur eykst. Sá skattur sem lagður er á vaxtatekjurnar skiptist á milli upprunalands teknanna og heimalands tekjuhafans. Samkvæmt tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert er um tvennt að ræða. Annars vegar eru skattar á vexti milli ríkjanna felldir niður. Er það svo í samningum landsins við ríki í Norður- og Vestur-Evrópu og Bandaríkin. Verða því engar breytingar á skattlagningu vaxta til aðila í þessum ríkjum. Í nýrri samningum sem Ísland hefur gert er hins vegar í mörgum tilvikum gert ráð fyrir rétti upprunaríkisins til að leggja afdráttarskatt á vexti. Hefur slíkt verið tekið upp að kröfu gagnaðilans en ýmis lönd, einkum fjármagnsinnflutningsríki, fylgja þeirri stefnu að gefa skattlagningu vaxta ekki eftir. Í þeim tilvikum sem tvísköttunarsamningar kveða á um að skattlagningarréttur á vöxtum sé á Íslandi eiga móttakendur vaxtanna rétt á endurgreiðslu/frádrætti í sínu heimaríki. Sama á við um mörg önnur ríki sem hafa, eins og Ísland, í sinni innlendu skattalöggjöf heimildir til að endurgreiða skatta sem lagðir eru á tekjur sem innlendir aðilar fá frá öðrum löndum. Með þessu móti ætti skattbyrði móttakanda vaxtanna ekki að þyngjast og ætti þannig ekki að hafa áhrif á það vaxtastig sem innlendir aðilar bera. Frumvarpinu fylgir yfirlit yfir tvísköttunarsamninga sem Ísland er aðili að. Rétt er að árétta að ekki er verið að leggja skatt á þá sem inna vaxtagreiðslurnar af hendi heldur þá sem eru móttakendur vaxtanna.
    Gert er ráð fyrir að innheimta tekjuskatts af vöxtunum verði í staðgreiðslu. Undanþága frá skattinum er veitt þeim sem fá vaxtagreiðslur frá Seðlabanka Íslands sem og erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum og erlendum opinberum aðilum sem ekki eru skattskyldir í heimaríkinu. Þessum breytingum samfara eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er þannig gert ráð fyrir að staðgreiðsla af vöxtum verði samkvæmt ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda líkt og flestar aðrar greiðslur til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Verðlags- eða gengisbreytingar á höfuðstól krafna í eigu erlendra aðila sæta ekki skattskyldu eða staðgreiðsluskyldu vegna þessa.
    Ekki er gert ráð fyrir að innheimta skatts af vöxtum til aðila með takmarkaða skattskyldu hefjist fyrr en í upphafi árs 2010 og gefst því viðkomandi aðilum góður tími til að undirbúa þá framkvæmd. Líklegt er að þessi breyting muni hafa í för með sér nokkrar skatttekjur af vaxtagreiðslum til erlendra aðila en vegna tvísköttunarsamninga við flest þau lönd sem hýsa lánveitendur til íslenskra aðila er ekki líklegt að þær verði verulegar. Hins vegar má reikna með að afleiðing ákvæða af þessu tagi dragi úr skattatapi vegna tekjuhliðrunar og undanskota.
    Í öðru lagi er mælt fyrir um breytingar á 3. tölul. 28. gr. tekjuskattslaga í kjölfar þess að á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Í því frumvarpi er kveðið á um að við lögin skuli bætast nýr kafli, X. kafli a, sem hafi að geyma úrræði fyrir einstaklinga í greiðsluvanda. Af þessu tilefni þykir rétt að leggja til breytingar á 3. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt og taka af öll tvímæli um að eftirgjöf skulda samkvæmt nauðasamningi um greiðsluaðlögun skuli ekki teljast til skattskyldra tekna.
    Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði ákvæði um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum. Löggjöf af þessum toga er til staðar annars staðar á Norðurlöndum og í flestum löndum hins vestræna heims. Markmið slíkrar löggjafar er að hamla gegn skattasniðgöngu sem fram fer með þeim hætti að innlendir aðilar leyna eignum sínum og flytja tekjur úr landi í félög sem þeir stofnsetja í lágskattaríkjum án þess að hafa í reynd nokkra starfsemi þar. Aukið frjálsræði í flutningi fjármagns á milli landa kallar á breytingar á íslenskri löggjöf hvað þetta varðar. CFC-löggjöf (CFC = Controlled Foreign Corporation) er algengasta ráðstöfun ríkja gegn undanskoti skatta með framangreindum hætti. CFC-reglur voru teknar upp í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar og hafa á síðustu árum verið teknar upp í miklum fjölda landa. Á vegum OECD hefur um alllangt skeið staðið yfir átak til að draga úr skaðlegri skattastarfsemi sem m.a. tekur til notkunar lágskattaríkja til að koma tekjum undan skatti í því landi sem á skattlagningarrétt á þeim samkvæmt almennt viðurkenndum alþjóðlegum skattarétti. Ein þeirra ráðstafana sem OECD hefur mælt með og bent aðildarríkjunum á að gera til að draga úr starfsemi af þessum toga er að hafa CFC-ákvæði í löggjöf sinni. Hafa flest aðildarríkin þegar sett slík ákvæði, m.a. öll önnur Norðurlönd, og hafa þau styrkt þessa löggjöf og hert á síðustu árum í ljósi fenginnar reynslu og aukinnar misnotkunar.
    Í skýrslu um umfang skattsvika á Íslandi sem kynnt var á Alþingi í desember 2004 var CFC-löggjöf ein þeirra ráðstafana sem talin var brýnust í þeim tilgangi að draga úr skattsvikum. Í þeirri skýrslu er gerð grein fyrir ýmsum leiðum til skattsvika sem viðgangast í skjóli svokallaðra lágskattaríkja eða skattaparadísa og eins kemur fram í henni að í fjölmörgum skattsvikamálum á undanförnum árum hafa komið fram tilvik sem sýna að þessar leiðir eru notaðar í stórum stíl af íslenskum skattaðilum.
    Tilgangur CFC-reglna er að sporna gegn skattalegum ráðstöfunum með aðild erlendra lögaðila sem hafa oft þann tilgang einan að komast undan eðlilegri skattlagningu hér á landi og grafa þannig undan innlendum skattstofni. Þau nýmæli sem hér eru lögð til eru sniðin eftir norskum lögum enda hafa Íslendingar og Norðmenn sömu stöðu gagnvart Evrópusambandinu og EES-svæðinu.
    Meginatriði hinna nýju ákvæða eru þau að ef íslenskur skattaðili á eða hefur umráð yfir félagi sem staðsett er á lágskattasvæði er við skattlagningu litið svo á að tekjur þessa félags séu í reynd tekjur hins íslenska skattaðila og þær skattlagðar með öðrum tekjum hans. Er þessi aðferð í reynd hliðstæða þess sem þegar gildir um skattlagningu sameignarfélags sem ekki er sjálfstæður skattaðili. Ákvæði frumvarpsins skilgreina nánar hvað felst í eign og umráðum svo og hvað telst lágskattasvæði. Þá er kveðið á um frávik sem einkum snúa að félögum í virkri atvinnustarfsemi á EES-svæðinu.
    Sú mikilvæga breyting felst einnig í þessu ákvæði að með því verður til framtalsskylda hins íslenska eiganda eða umráðaaðila vegna hinna erlendu félaga, eigna þeirra og tekna. Vanræksla á að telja rétt fram varðar hina íslensku eigendur eða umráðaaðila viðurlögum samkvæmt skattalögum, álagi á vanframtaldar tekjur eða eftir atvikum skattrannsókn sem refsivert brot.
    Ekki er við því að búast að skattlagning tekna félaga í íslenskum umráðum skili miklum skatttekjum sem slík. Tilgangur með löggjöf sem þessari er að draga úr skattasniðgöngu. Má því reikna með að félögum í eigu íslenskra aðila á aflandssvæðum fækki og skattskil þeirra verði betri.
    Í fjórða lagi er mælt fyrir um breytingar á 92. gr. tekjuskattslaga, sem fjallar um þær upplýsingar sem senda ber skattyfirvöldum reglulega og án kvaðningar. Breytingarnar miða að því að bæta skil banka og fjármálafyrirtækja á upplýsingum um skuldabréf, afleiðuviðskipti, eignastýringu, milligöngustarfsemi og fleira. Nýverið voru samþykkt lög um breytingar á 92. gr. tekjuskattslaga um upplýsingaskyldu banka og fjármálafyrirtækja um inneignir og innstæður og greidda vexti og afdregna staðgreiðslu en ekki var gert skylt að upplýsa jafnframt um eignir viðskiptamanna í sjóðum sem fjármálafyrirtæki hefur á sinni hendi. Rétt þykir nú að taka skrefið til fulls þannig að upplýsingaskyldan taki einnig til útlána banka og fjármálafyrirtækja í árslok og greiddra vaxta á árinu. Með breytingu þessari verður þannig einnig skylt að upplýsa um allar eignir viðskiptamanna bankanna, hvort heldur fjármunir þeirra eru geymdir á almennum bankareikningum, verðbréfasjóðum eða á annan hátt. Breytingin nær þannig til upplýsinga um tekjur af hvers kyns fjármálagerningum sem og milligöngustarfsemi sem fjármálafyrirtæki annast. Með breytingum þessum er m.a. komið í veg fyrir að með yfirdrætti eða lántökum í árslok sé unnt að komast hjá því að veita upplýsingar um stöðu reikninga á árinu.
    Breytingar þessar þjóna margvíslegum tilgangi. Má fyrst nefna bein áhrif á skattlagningu þar sem skuldir og vaxtagjöld af lánum til íbúðakaupa eru t.a.m. ráðandi forsenda við ákvörðun vaxtabóta og sömuleiðis hafa eignir, þar á meðal peningalegar eignir, áhrif á þær. Þá teljast eftirgefnar skuldir einstaklinga og fyrirtækja almennt til skattskyldra tekna. Breytingarnar þjóna jafnframt eftirlitstilgangi. Eignakaup og fjármögnun þeirra eru tíðast skýrð með lánum ef framtaldar tekjur og eignir hrökkva ekki fyrir kaupum og með upplýsingum um lán á framtölum er unnt að bera þær með einföldum hætti saman við upplýsingar sem lánveitandi eða skuldareigandi lætur skattyfirvöldum í té. Þá má nefna að með upplýsingum um lán, skuldir og vaxtagjöld einstaklinga mun verða unnt að forskrá nær allar upplýsingar sem til þarf fyrir framtal flestra einstaklinga sem ekki stunda atvinnurekstur. Upplýsingar um lán og skuldir atvinnurekstrarins munu þó fyrst um sinn ekki nýtast til áritunar á skattframtöl lögaðila og manna í sjálfstæðri starfsemi en verða ómetanlegt tæki við mat á trúverðugleika skattskila hvað varðar tekjur og eignamyndun. Þá þykir rétt að taka af allan vafa um að ákvæðið taki til upplýsinga um hvers kyns fjármálagerninga svo sem skuldabréfa, afleiðuviðskipta og inneigna í verðbréfasjóðum sama hvaða nafni nefnast.
    Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á 94. gr. tekjuskattslaga, sem fjallar um skyldu aðila til að veita skattyfirvöldum upplýsingar þegar eftir þeim er leitað. Breytingarnar eru tvíþættar. Annars vegar er kveðið á um skyldu fjármálastofnana sem starfa hér á landi til að veita upplýsingar um viðskipti sem íslenskir skattaðilar hafa við útibú þeirra erlendis eða dótturfélög þar. Skattyfirvöld hafa ítrekað þurft að sækja eftirlitsupplýsingar frá bönkum og fjármálafyrirtækjum með aðstoð dómstóla. Fjármálafyrirtæki hafa komist undan því að skila upplýsingum um tekjur sem skattskyldar eru á Íslandi með því að flytja bankainnstæður og fjárfestingaeignir í eigu Íslendinga yfir í dótturfélög erlendis. Þar með hefur lokast fyrir upplýsingagjöf til íslenskra skattyfirvalda. Grunur leikur á að eignarhald í félögum hafi verið falið með því að skrá félög á Bresku Jómfrúreyjum eða í öðrum lágskattaríkjum og tekjum þar með skotið undan réttmætri íslenskri skattlagningu. Lagt er til, eins og gerist víða erlendis, að á grundvelli samstæðuréttar verði íslensk móðurfélög ábyrg fyrir að veita upplýsingar um viðskipti sem aðilar skattskyldir á Íslandi hafi átt við dótturfélög og útibú sem móðurfélagið á eða rekur erlendis. Hins vegar er lagt til að þeir sem starfa við skattaráðgjöf og fjármálaþjónustu verði skyldaðir til að halda lista yfir viðskiptavini sína varði þjónustan beina eða óbeina eignaraðild að félagi, sjóði eða stofnun sem skráð er erlendis eða eignir þar. Skrá þessi skal vera aðgengileg skattyfirvöldum óski þau eftir aðgangi að henni. Enn fremur er svo lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að ákvæði í öðrum lögum um þagnar- eða trúnaðarskyldu víki ávallt fyrir ákvæðum þessara laga. Hafa ber í huga að þær upplýsingar sem hér um ræðir eru ekki fjárhagsupplýsingar heldur skrá um þá aðila sem hafa verið í viðskiptum eða þjónustu sem varðar félög þeirra eða eignir erlendis. Með þá vitneskju í höndum geta skattyfirvöld krafið þessa aðila upplýsinga um þessi mál, sbr. önnur ákvæði frumvarpsins eða eftir atvikum fengið upplýsingar frá viðkomandi fjármálastofnunum um málið.
    Ákvæði sem þetta hefur um nokkurt skeið verið til staðar í öðrum löndum svo sem í Bandaríkjunum þar sem það hefur verið í framkvæmd síðan á árinu 2000. Álitamál um gildi þessara reglna, með tilliti til trúnaðarskyldna gagnvart viðskiptavinum þeirra sem á hafa verið lagðar kvaðir um upplýsingar, hafa verið borin undir dómstóla sem staðfest hafa rétt skattyfirvalda í þessum efnum. Upplýsingar sem fengist hafa með þessum hætti þykja hafa bætt stöðu skattyfirvalda gagnvart þeim sem ástunda að koma tekjum sínum undan skatti.
    Í sjötta lagi er lagt til að breytingar sem gerðar voru á ákvæði 15. gr. tekjuskattslaga á haustþingi og vörðuðu söluhagnað eigna hjá einstaklingum komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2010 í stað 2009 til að koma í veg fyrir mögulega afturvirkni.
    Gildistökuákvæði frumvarpsins miðast við það að breytingar sem fela í sér nýjar skattakvaðir, eins og skattlagning vaxtatekna erlendra aðila, komi til framkvæmda frá 1. janúar 2010. Þau ákvæði sem lúta að skilum á upplýsingum til skattyfirvalda, þar með talin ákvæði um skyldu skattaráðgjafa og þeirra sem veita þjónustu varðandi erlend félög og eignir íslenskra aðila, taki gildi við setningu laganna. Sú upplýsingagjöf kann því að leiða til þess að upplýsingar fáist um tekjur, sem til féllu fyrir gildistöku laganna, og mun það leiða til skattlagningar hafi þær verið skattskyldar samkvæmt gildandi skattalögum á hverjum tíma.
    Eins og að framan getur er ekki gert ráð fyrir að ákvæði þessa frumvarps leiði til sérstaks og sérgreinds tekjuauka. Aftur á móti má reikna með því að skattframkvæmd styrkist verulega og leiði til aukinna tekna af tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja. Ákvæði þessa frumvarps verða ekki síst til þess að auka jafnræði með því að draga úr möguleikum þeirra sem hafa vilja og aðstöðu til þess að velta hlutdeild sinni í kostnaði af samfélaginu yfir á aðra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að aðilar með heimilisfesti og skattskyldu utan Íslands beri hér á landi takmarkaða skattskyldu vegna vaxta sem þeir fá greidda af bankareikningum, verðbréfa- og fjárfestingasjóðum, skuldabréfum og öðrum kröfum og fjármálagerningum hér á landi. Ákvæðið á við um þá vexti sem íslenskir skattaðilar greiða erlendum aðilum. Skilgreiningu á því hvað teljast vextir er að finna í 3. tölul. C-liðar 1. mgr. 7. gr. sbr. 8. gr. laganna. Þó eru undanþegnir vextir sem Seðlabanki Íslands greiðir sem og vextir sem mótteknir eru af erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum og öðrum slíkum aðilum sem ekki eru skattskyldir í sínu heimaríki. Skilyrðið er að viðkomandi móttakandi sé undanþeginn skattskyldu í sínu heimilisfestarríki. Í þeim tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki er ýmist kveðið á um að upprunaland vaxta eigi rétt á að skattleggja þá með 0–10% skatthlutfalli. Telji móttakandi vaxtanna sig eiga rétt á að njóta ákvæða tvísköttunarsamninga þarf hann að óska eftir staðfestingu á því hjá skattyfirvöldum. Verður að gera þá kröfu að skattskylda í viðkomandi samningsríki verði sönnuð með staðfestingu frá bæru stjórnvaldi.

Um 2. gr.

    Eins og rakið er hér að framan hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði nýjum kafla við 3. þátt laganna um gjaldþrotaskipti o.fl. sem hafi að geyma ákvæði um greiðsluaðlögun. Úrræðið lýsir sér í því að skuldari getur að ákveðnum skilyrðum fullnægðum leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í frumvarpinu kemur fram að úrræðið nái ekki til einstaklinga sem á undangengnum þremur árum hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, nema að rekstri hafi verið hætt og að skuldir sem af atvinnurekstrinum stafa séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum. Jafnframt kemur fram að með greiðsluaðlögun megi kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest o.fl.
    Almennt er eignaauki sem stafar af eftirgjöf skulda talinn til skattskyldra tekna nema uppfyllt séu skilyrði 3. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt. Núgildandi ákvæði 3. tölul. 28. gr. kveða á um að skuldirnar megi ekki hafa myndast í sambandi við atvinnurekstur. Framangreint ákvæði 3. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ber að skýra í samræmi við orðanna hljóðan enda er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu laganna að greiða skuli tekjuskatt af öllum tekjum. Verði frumvarpið um greiðsluaðlögun að lögum getur skapast óvissa um hvernig fara eigi með skattskyldu eftirgefinna skulda sem felldar eru niður á grundvelli nauðasamnings um greiðsluaðlögun.
    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á 3. tölul. 28. gr. eru tekin af öll tvímæli um að eftirgjöf skulda samkvæmt nauðasamningi um greiðsluaðlögun teljist ekki til skattskyldra tekna.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um gildissvið greinarinnar. Tekur hún til einstaklinga eða lögaðila sem bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi á grundvelli 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, og eiga beint eða óbeint hluti í félögum, stofnunum og sjóðum, sem hafa heimilisfesti í lágskattaríki. Reglurnar taka enn fremur til þeirra sem hafa tekjur af sjálfstæðri starfsemi eða eignasöfnum í slíkum ríkjum þótt ekki sé um skráðan aðila að ræða. Samkvæmt ákvæðinu skal íslenskur skattaðili greiða tekjuskatt af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar í hlutfalli við eignaraðild sína. Hlutdeild í hagnaði reiknast án tillits til hugsanlegrar úthlutunar úr félaginu, þ.e. hún dregst ekki frá þeim hagnaði sem skattlagður verður samkvæmt reglunum. Ákvæði 2. málsl. tekur til þeirra tilvika þegar skattaðili fer með raunveruleg yfirráð yfir eða á rétt til hagnaðar af starfsemi í lágskattaríki þó svo að hann geti að forminu til sýnt fram á að beint eða óbeint eignarhald hans sé undir 50%. Tekjur þessar eru skattskyldar með sambærilegum hætti og um væri að ræða starfsemi hér á landi, þ.e. atvinnurekstrartekjur skv. B-lið 7. gr. laganna.
    Í 2. mgr. er skilgreint hvenær ríki eða lögsagnarumdæmi teljist vera lágskattaríki skv. 1. mgr. greinarinnar er sett það skilyrði að félag, sjóður eða stofnun hafi skattalega heimilisfesti í lágskattaríki. Það felur í sér að ákvæði reglnanna taka ekki til lögaðila sem bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi skv. 2. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu er lágskattaríki skilgreint sem það ríki eða lögsagnarumdæmi þar sem tekjuskattur á viðkomandi félag, sjóð eða stofnun er minni en 2/3 af þeim skatti sem lagður yrði á slíkan aðila hér á landi. Með þessu er ekki einungis átt við skatthlutfallið heldur hinn raunverulega skatt reiknaðan eftir sömu reglum og um skattlagningu gilda hér á landi. Við ákvörðun á hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar þarf því að leiða fram skattstofn samkvæmt gildandi íslenskum skattalögum hvað varðar skattskyldu tekna og frádráttarbærni rekstrarkostnaðar. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að lögaðilar í sambærilegum félagaformum og íslensk hlutafélög og einkahlutafélög eiga sama frádráttarrétt á arði og söluhagnaði sbr. 9. og 9. tölul. a 31. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðuneytið setji nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.
    Í 3. mgr. er skilgreint hvenær eignarhald og stjórnunarleg yfirráð leiða til skattlagningar. Þegar að minnsta kosti helmingur hluta í félagi, sjóði eða stofnun er í eigu íslenskra skattaðila eru atvik með þeim hætti að ákvæði 1. mgr. eiga við. Með eign íslenskra aðila er átt við sameiginlega eignaraðild allra íslenskra aðila sem í félaginu eiga. Íslensk eign yfir 50% hluta innan tekjuárs er þannig nægileg til að eignarhald í félagi, sjóði eða stofnun falli undir greinina. Sama er að segja um stjórnunarleg yfirráð þótt aðili geti sýnt fram á að forminu til að eignarhald hans, beint eða óbeint, sé undir 50%. Dæmi eru um að menn hafi leitast við að fela eignarhald og á þessi regla, sem byggist á raunveruleikareglunni, að sporna gegn slíku. Eigendur þessara hluta geta verið margir og þurfa ekki að starfa saman eða hafa merkjanleg tengsl. Bein eign og umráð eru yfirleitt með þeim hætti að um er að ræða eignarhald á hlutabréfum eða hlutum. Eign og umráð þurfa ekki að fara saman. Þannig getur minni hluti eigenda farið með umráð félags t.d. vegna samninga hluthafa eða takmörkun atkvæðisréttar einhverra hlutabréfa eða hluthafa. 50% eignarhald íslenskra aðila er hins vegar nægilegt jafnvel þótt félagið sé í umráðum erlendra aðila. Óbein eignaraðild eða umráð eru nægileg til að skilyrðið sé uppfyllt. Í því sambandi er þess að gæta að umráð geta verið önnur og meiri en eignarhlutinn. Ef íslenskur aðili á 50% hluta í félagi telst hann hafa umráð yfir því. Eigi það félag 50% í öðru félagi yrði litið svo á að síðara félagið væri einnig í 50% íslenskum umráðum en ekki bara að 25%.
    4. mgr. hefur að geyma tvíþætta undantekningu frá 1. mgr. Annars vegar er tiltekið að ákvæði 1. mgr. eigi ekki við um þau félög, sjóði eða stofnanir sem njóta verndar tvísköttunarsamninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki enda eru tekjurnar ekki að meginstofni til eignatekjur. Með því er átt við að meira en helmingur teknanna stafi frá raunverulegri atvinnustarfsemi, þ.e. framleiðslu eða sölu á vörum eða þjónustu. Þá er að auki gert ráð fyrir því að viðkomandi tvísköttunarsamningur hafi að geyma upplýsingaákvæði sambærilegt við 26. gr. samningsfyrirmyndar OECD. Félög, sjóðir og stofnanir sem hafa aðallega tekjur af eignum svo sem arð, vexti og söluhagnað, þ.e. óvirkar tekjur (e. passive income), þ.m.t. tekjur af óefnislegum eignum, svo sem réttindum hvers konar og sæta skattlagningu undir þeim mörkum sem sett eru í greininni, falla undir ákvæði hennar. Hins vegar er gert ráð fyrir að ákvæði 1. mgr. taki ekki til félags, sjóðs eða stofnunar sem er stofnsett og skráð í öðru EES-ríki og hefur þar með höndum raunverulega atvinnustarfsemi, eins og það hugtak hefur verið skilgreint hér að framan, enda njóti félagið, sjóðurinn eða stofnunin verndar tvísköttunarsamnings sem Ísland er aðili að með sambærilegu upplýsingaákvæði og lýst var hér að framan. Fjölgi ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu getur komið upp sú staða að ekki sé í gildi tvísköttunarsamningur milli Íslands og hins nýja aðildarríkis. Í því tilviki þykir rétt að skattaðili sjálfur geti aflað nauðsynlegra upplýsinga til sönnunar á starfsemi félags, sjóðs eða stofnunar.
    Í 5. mgr. er kveðið á um hvernig reikna skuli út skattskyldar tekjur hins íslenska skattaðila. Er kveðið á um að þær miðist við eignarhlutdeild hans. Sé um beint eignarhald að ræða skulu þær ákveðnar sem hlutdeild skattaðilans í hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar og þá miðað við að hagnaðurinn sé ákveðinn með sama hætti og gert yrði ef hinn erlendi aðili væri íslenskur skattaðili, sbr. umfjöllun hér að framan um 2. mgr. Sé um óbeina eignaraðild að ræða, þ.e. eignarhaldið er í gegnum annað eða önnur félög, skal skattlagning eftir sem áður miðast við samanlagt eignarhald á þeirri starfsemi sem skattlagningin tekur til. Hafi hluti hagnaðar hins erlenda aðila verið skattlagður hér á landi hjá millilið skal taka tillit til þess. Sömu skilyrði gilda um nýtingu taps og koma fram í 8. tölul. 31. gr. laganna með því viðbótarskilyrði að skattaðili geti sýnt fram á með framlagningu gagna hvernig tap er reiknað út.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að hafi félag, sjóður eða stofnun úthlutað íslenskum skattaðila af hagnaði sínum skuli sá hagnaður ekki sæta skattlagningu hafi skattaðilinn sætt skattlagningu skv. 1. mgr. Ákvæðið er sett til þess að koma í veg fyrir tvísköttun þar sem ákvörðun skattskyldra tekna skv. 1. mgr. er tekin án tillits til úthlutunar fjármuna.
    Í 7. mgr. er að lokum heimild til setningar á reglugerð sem mundi geyma reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Um 4. gr.

    Greinin hefur að geyma breytingar á 70. gr. tekjuskattslaga sem leiðir af þeim breytingum sem verða á 3. gr. tekjuskattslaga sbr. 1. gr. þessa frumvarps. Samkvæmt þessu greiða einstaklingar með takmarkaða skattskyldu fjármagnstekjuskatt af vöxtum. Skattlagning lögaðila með takmarkaða skattskyldu fer skv. 71. gr. laganna eins og verið hefur.

Um 5. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 92. gr. tekjuskattslaga en hún kveður á um þær upplýsingar sem veita skal skattyfirvöldum reglulega og án kvaðningar hverju sinni. Með ákvæðinu er lagt til að byggt verði enn frekar undir þá upplýsingaskyldu sem fyrir hendi er, auk þess sem hún er látin ná til upplýsinga um hvers kyns vaxtaberandi eignir, ekki eingöngu bankainnstæðna eins og nú er. Þá er skyldan jafnframt látin ná til hvers kyns skulda. Með þessum breytingum er skylda fjármálastofnana hér á landi gerð sambærileg því sem verið hefur á Norðurlöndunum um margra ára skeið og hefur m.a. tekið til íslenskra fyrirtækja sem starfað hafa í þeim löndum. Í því felst einnig að fjármálafyrirtæki eru jafnsett öðrum íslenskum fyrirtækjum sem skylt er að upplýsa skattayfirvöld um skattskyldar tekjur manna og fyrirtækja svo sem laun, hlunnindi, verktakagreiðslur, arð o.fl. Þeim misskilningi hefur oft verið haldið á lofti að sérstök bankaleynd gildi um fjármálastofnanir. Í reynd er það svo að um er að ræða trúnaðarákvæði um fjárhagsmál sem er lítt frábrugðið því sem almennt gildir um trúnað í viðskiptum milli aðila. Trúnaðarskylda skattyfirvalda um þær upplýsingar sem þau afla og fá um skattaðila er hins vegar muna ríkari.

Um 6. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 94. gr. tekjuskattslaga sem fjallar um upplýsingar sem skattaðilum ber að veita skattyfirvöldum sé eftir því leitað t.d. vegna skatteftirlits og skattrannsókna. Í a-lið tillögunnar felst að um viðskipti erlendra dótturfélaga og útibúa íslenskra móðurfélaga við íslenska aðila gildi sömu ákvæði um skil á upplýsingum til skattyfirvalda og gilda um móðurfélagið sjálft. Er það gert til að koma í veg fyrir að félag geti losnað undan upplýsingaskyldu með því að láta viðskipti fara fram í gegnum erlent dótturfélag eða útibú. Í mörgum slíkum tilvikum er móðurfélagið hinn raunverulegi gerandi í viðskiptunum og ákvarðanir um þau teknar af móðurfélaginu þótt framkvæmdin sé falin dótturfélaginu. Á undanförnum árum hefur hugtakið samstæðuréttur rutt sér til rúms víða í Evrópu. Með hugtakinu er átt við ábyrgð móðurfélags á starfsemi dótturfélags og skyldum sem móðurfélagið ber fyrir hönd dótturfélags. Ljóst ætti að vera að móðurfélag er í flestum tilvikum ráðandi um starfsemi og stjórnunarstefnu dótturfélags og hlutast til um hverjir veljast í stjórnunarstöður hjá því. Þannig er dótturfélagið í raun framlenging á starfsemi móðurfélags með svipuðum hætti eins og um útibú væri að ræða þótt hin formlega umgjörð sé færð í búning hlutafélags eða einkahlutafélags. Það hefur einnig verið litið svo á að í vissum tilvikum geti stjórnunarleg yfirráð leitt af sér ámóta samband og er á milli móður- og dótturfélags. Er þá einkum horft til þess að í félögum þar sem eignarhald er dreift geti einn stór hluthafi, þótt eignarhald hans sé undir 50%, farið með ráðandi hlut í félagi ef hann á meiri hluta fulltrúa í stjórn þess. Slíkt ráðandi samband getur einnig byggst á tengslum stórs hluthafa við annan hluthafa eða tengslum tveggja stórra hluthafa, t.d. tveggja samstarfsfyrirtækja, ef þeir saman fara með meirihlutavöld í félagi á grundvelli eignarhalds eða ráðandi hlutar í formi meiri hluta stjórnar. Horfa þarf til þess í víðu samhengi hvernig þessu eignarhaldi og stjórnunarfyrirkomulagi er háttað við mat á upplýsingaskyldu eins og henni er fyrirkomið í 6. gr.
    Í b-lið tillögunnar felst það nýmæli að fjármálafyrirtæki, endurskoðendur, lögmenn og aðrir aðilar sem veita alþjóðlega skattaráðgjöf og þjónustu vegna erlendra samskipta verða skyldugir til að halda skrá yfir þá viðskiptavini sína sem þiggja slíka ráðgjöf og þjónustu. Slík skrá skal hafa að geyma nægjanlegar upplýsingar til auðkenningar á skattaðila. Með alþjóðlegri skattaráðgjöf og þjónustu er átt við ráðgjöf sem þessir aðilar veita og lýtur t.a.m. að stofnun og skráningu lögaðila erlendis, flutningi á fjármagni til annarra ríkja eða lögsagnarumdæma og flutningi á eignarhaldi á íslenskum fyrirtækjum til erlendra aðila. Skattyfirvöld geta hvenær sem er óskað eftir að aðgangi að skránni og er skylt að láta þeim hana í té beiðast þau þess. Til að eyða allri óvissu um rétthæð laga er lögfest ákvæði þess efnis að þagnar- og trúnaðarskylduákvæði annarra laga víki fyrir ákvæðum skattalaga.
    Verði frumvarpið samþykkt er æskilegt að ákvæðum í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og lögum um virðisaukaskatt verði breytt síðar til samræmis við þær breytingar sem hér eru lagðar til á 94. gr. tekjuskattslaga.

Um 7. gr.


    Með lögum nr. 164/2008 var gerð sú breyting á 15. gr. tekjuskattslaga, er kveður á um meðferð söluhagnaðar af fasteignum sem ekki er heimilt að fyrna, að ákvæði 3. mgr. tekur nú einungis til fasteigna manna en ekki eigna sem tilheyra atvinnurekstri, enda slík undantekningarregla í andstöðu við meginreglur laganna um útreikning söluhagnaðar af atvinnurekstrareignum. Breyting þessi skyldi koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009. Að teknu tilliti til afturvirknissjónarmiða og þess að um var að ræða íþyngjandi breytingu þykir rétt að framkvæmdinni verði frestað fram að álagningu tekjuskatts á árinu 2010.

Um 8., 9. og 10. gr.

    Í samræmi við þær breytingar sem verða á 3. gr. tekjuskattslaga, sbr. 1. gr. frumvarpsins, er hér kveðið á um að innheimta skuli í staðgreiðslu skatt af vöxtum sem greiddir eru til aðila með takmarkaða skattskyldu. Réttilega ákvörðuð og innborguð staðgreiðsla tekjuskatts er fullnaðargreiðsla nefndra gjalda hér á landi án þess að fram þurfi að fara frekari ákvörðun eða álagning.

Um 11. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku frumvarpsins og hvenær einstakar greinar þess koma til framkvæmda. Er gert ráð fyrir að öll ákvæði þess öðlist gildi við samþykkt frumvarpsins en komi til framkvæmda með mismunandi hætti. Þau ákvæði sem fjalla um upplýsingaskyldu og upplýsingagjöf koma þegar til framkvæmda en þau ákvæði er fela í sér skattskyldu sem ekki var áður fyrir hendi, innheimtu og skil á þeim sköttum, koma til framkvæmda 1. janúar 2010. Þá er ákveðið að vextir sem áunnir voru fyrir þann tíma beri ekki skatt.


Fylgiskjal I.

Yfirlit yfir þau ríki sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamninga við.

    Austurríki*
    Bandaríkin
    Belgía
    Bretland
    Búlgaría*
    Danmörk
    Eistland
    Finnland
    Frakkland
    Grikkland
    Holland
    Írland
    Ítalía
Indland
Kanada
Kína
Króatía*
Lettland
Litháen
Lúxemborg
Malta
Mexíkó
Noregur
Portúgal
Pólland
Rúmenía
Rússland
Slóvakía
Slóvenía*
Spánn
Suður-Kórea
Sviss
Svíþjóð
Ungverjaland
Úkraína
Tékkland
Víetnam
Þýskaland
*Samningar sem ekki hafa tekið gildi.

Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum
.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að innheimtur verði tekjuskattur af vöxtum sem greiddir eru úr landi. Undanþága er veitt fyrir þá aðila sem fá vaxtagreiðslur frá Seðlabanka Íslands, erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í sínu heimilisfestarríki. Í öðru lagi er lagt til að eftirgjöf skulda samkvæmt frumvarpi sem nú er til umfjöllunar á Alþingi um nauðasamninga um greiðsluaðlögun skuli ekki teljast til skattskyldra tekna. Í þriðja lagi er lagt til að breyting verði gerð á lögunum til að bæta skil banka og fjármálafyrirtækja á upplýsingum um afleiðuviðskipti, eignastýringu, milligöngustarfsemi og fleira. Með þessu ákvæði er þessum aðilum nú gert skylt að veita upplýsingar um útlán í árslok og greidda vexti á árinu. Áður hefur verið fest í lög skylda banka og fjármálafyrirtækja til að veita upplýsingar um inneignir og inni stæður í árslok, auk greiddra vaxta og afdreginnar staðgreiðslu. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að á grundvelli samstæðureiknings verði íslensk móðurfélög ábyrg fyrir að veita upplýsingar til íslenskra skattyfirvalda um tekjur viðskiptavina erlendra dótturfélaga séu þeir skattskyldir hér á landi. Með þessu ákvæði er verið að koma í veg fyrir að hægt verði að fela eignarhald í félögum með skráningum í lágskattaríkjum og þar með skjóta tekjum undan réttmætri íslenskri skattlagningu. Í fimmta lagi er lagt til að lögfest verði ákvæði um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum í lágskattaríkjum. Með þessu ákvæði er verið að hamla gegn skattasniðgöngu aðila sem leyna eignum sínum og flytja tekjur úr landi í félög sem stofnuð eru í lágskattaríkjum án þess að hafa nokkra starfsemi þar. Að lokum er lagt til að ákvæði sem sett var í tekjuskattslög síðastliðið haust varðandi söluhagnað af fasteignum sem ekki er heimilt að fyrna verði breytt þannig að ákvæðið taki gildi við álagningu tekjuskatts á árinu 2010 en ekki 2009 eins og lögin gera ráð fyrir. Eins og fram kom í umsögn um þá lagabreytingu eru áhrif þessa á tekjur ríkissjóðs talin óveruleg.
    Frumvarp þetta gæti haft áhrif á tekjur ríkissjóðs á komandi árum. Sérstaklega á þetta við um skatttekjur af vöxtum sem greiddir eru úr landi. Á þessu stigi hefur ekki farið fram nægileg greining á vaxtagreiðslum úr landi til að hægt sé að leggja mat á hugsanlegar skatttekjur af þeim. Það fer m.a. eftir umfangi þeirra undaþága sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Einnig má nefna að vegna tvísköttunarsamninga verður ekki um að ræða skatt af vaxtagreiðslum til flestra Vestur-Evrópulanda og til Bandaríkjanna. Á þessu stigi er því ekki lagt mat á umfang teknanna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að verulegar breytingar eða aukning verði í rekstri skattkerfisins og þar af leiðandi ekki aukin útgjöld úr ríkissjóði.